skúli.annáll.is

AnnállGreinarPrédikanirSiglinganámskeiðSýnódurSöfnuður

« HM-messa · Heim · Falsspámaðurinn »

Kölluð til ábyrgðar

Skúli @ 19.32 16/7/06

Nýverið heyrði ég vitnað í ritstjóra stórs fréttamiðils sem lýsti hlutverki sínu sem svo að hann gengi um í stórri kjörbúð og veldi þar ofan í litla innkaupakerru sem hann hefði meðferðis. Vörurnar sem hann legði ofan í körfuna þyrftu að vera auðmeltar og nógu meðfærilegar til þess að komast þar fyrir en jafnfram það áberandi að tekið yrði eftir þeim. Þetta yfirfærði hann á fréttirnar sem hann velur úr þeim aragrúa mynda sem berast í gegnum gervihnetti frá öllum heimshornum.

Predikun fimmta sunnudag eftir þrenningarhátíð

Lexían Jer. 1. 4-10. Pistillinn 1. Pét. 2. 4 -10. Guðspjallið Lúk. 5. 1 – 11

Valið úr

Þetta hlýtur að vera vandasamt starf þegar það er haft í huga hversu víða átökin geysa í henni veröld. Jafnan mun vera barist í þrjátíu löndum í heiminum á hverjum degi og þegar velja á efni í fréttatíma sem varir kannske aðeins í þrjátíu mínútur gefur það auga leið að margt þarf að víkja og mörgu þarf að ýta til hliðar. Upp úr þeim kerrum sækjum við svo fréttirnar okkar.

Flestir þeir sem búa hér í þessum heimshluta kynnast blessunarlega kynnumst átökum og gengdarlausu ofbeldi fyrst og fremst í gegnum þessa fréttamiðla. En augljóst má hins vegar vera hversu miklu minna fólk verður móttækilegra fyrir slíkum fréttum. Áhuginn dvínar. Meðlíðunin dofnar. Hughrifin minnka og sífellt fer minna fyrir þeim athöfnum sem vakna í kjölfar þess að við kynnumst þjáningum meðbræðra okkar og systra.

Hugurinn mettur

Lýsing ritsjórans á störfum sínum kemur svo vel heim og saman við þetta. Skelfilegar sprengingar sem linsur nútímans festa á filmu, hungrið og hamfarnirnar víðs vegar í henni veröld – nei, þetta dugir ekki til því nútímamaðurinn – eins og við köllum hann gjarnan – er ekki lengur móttækilegur fyrir slíkum fréttum. Heilabúið er mettað af hryllingi. Hugsunin er ónæm fyrir þjáningu fjarri okkar heimaslóð. Og því talaði þessi ágæti maður um það að á hverjum degi gengi hann um kjörbúð fréttanna og veldi þar úr sitthvað sem auðlesanlegt væri, auðmeltanlegt en fljótt þyrfti hann að skipta út fyrir nýjar tegundir því fólk fær fljótt leið og verður að sjá og heyra eitthvað nýtt.

Skilaboð sem höfðu áhrif

Guðspjall dagsins gerist á vettvangi sem með nokkrum sanni má segja að hafi verið sem kjörbúð þess tíma. Þarna voru fiskimenn að störfum og ólíkt þeim verslunum sem við sækjum til var það ekki ofgnógtin sem vafðist fyrir þeim. Vandamálið fólst ekki í því að þeir sæju ekki fram úr valkostunum og þyrftu að velja úr það sem best þótt henta – heldur auðvitað þvert á móti. Aflinn var enginn og þó höfðu þeir stritað alla nóttina og ekekrt fengið.

Samlíkingin við fréttirnar sem við fáum kemur hér aftur upp í hugann. Því hér heyrum við frásagnir af mönnum sem fengu tíðindi. En ólíkt þeim fregnum sem berast okkur á öldum ljósvakans breyttu þessi tíðindi lífi þeirra. Textar dagsins segja okkur frá því hvernig fólk hefur brugðist við slíkum tíðindum. Þeir fjalla um köllun sem einstaklingar fengu og líf þeirra varð ekki samt eftir.

Köllunin

Því ólíkt þeirri niðursuðu sem fjölmiðlarnir færa okkur af ástandi mála í heiminum og fá hreyfa og við fáum hræra – fjallar texti dagsins um þau hughrif sem menn fengu við að fá merk tíðindi. Í kvöld fáum við fregnirnar af því hvað það er að heyra og skynja viðburði sem breyta okkur og færa okkur nýtt hlutverk í lífinu.

Fiskimennirnir sem höfðu verið að störfum alla nóttina og einskis aflað fengu þessa heimsókn. Jesús bað þá um að leggja lítið eitt frá landi. Hver kannast ekki við þessa tilfinningu þegar rennt er fyrir fiski og ekkert hefur gengið? Ég er viss um að þótt þeir hafi möglað, örþreyttir eftir erfiði næturinnar, hefur tilfinningin verið of sterk að taka ekki áskoruninni. Og aflinn var mikill.

Spámaðurinn Jeremía fékk líka köllun. Orð Drottins barst honum til eyrna og þessi ungi maður fékk að heyra frá því að hann hefið verið útvalinn áður en hann var í móðurkviði, helgaður og ákvarðaður til að vera spámaður meðal þjóðanna. Ungur var hann og óreyndur. Fiskimennirnir hafa sjálfsagt ekki verið rosknir heldur.

Látið undan

Þeir mögluðu líka allir: „Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Þetta sagði Símon Pétur. Og ekki eigum við erfitt með að skilja hikið og undanbrögðin frá Jeremía: „Æ, herra Drottin! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“

Báðir höfðu þeir sínar ástæður fyrir því að fylgja ekki kalli Drottins. Báðir létu þeir þó undan og svöruðu því kalli og áttu eftir að verða meðal þeirra sem unnu í víngarðinum og byggðu upp það ríki Krists sem enn stendur hér á jörðu, blómgast og eflist. Um það segir postulinn í texta dagsins:

Samfélag trúaðra

„En þér eruð útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans, sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir Guðs lýður. Þér, sem ekki nutuð miskunnar, hafið nú miskunn hlotið.“

Kirkjan samanstendur af slíku fólki. Þetta er hið konunglega prestafélag sem Drottinn hefur kallað saman til fylgdar við sig. Þetta er köllunin sem að okkur stendur. Guðs orð talar til okkar og breytir upp frá því lífi okkar. Breytir því hvernig við lítum á heiminn. Breytum því hvernig við komum fram við náunga okkar. Köllunin sem þeir fengu var í sjálfu sér ekki löng né flókin. Kristur staðfesti mátt sinn með tákni – og vísaði þá um leið fram til þess sem koma skyldi. Þeir mundu menn veiða og það í net náðarinnar.

Ábyrgð kristins manns

Sjálf höfum við þessa ábyrgð. Við erum skírð hér inn í þessa kirkju og um leið erum við öll hluti af kirkjunni. Við erum meðal þeirra lifandi steina sem mynda kirkjuna. Það er okkar hlutverk að sýna í verki þann kærleika sem okkur hefur verið miðlaður. Það er okkar hlutverk að rækta þennan veruleika og deila honum út á meðal systkina okkar.

Köllun okkar kristinna manna er enn mikilvægari á tímum þar sem ónæmi fólks fyrir þörf náungans verður æ meira. Ritstjórinn lýsti hlutverki sínu á þá leið að þar veldi hann úr það sem nýjast var, litríkast en varð þó að vera svo stutt og auðmeltanlegt að yfirborðið eitt mátti blasa við fólki. Annað varð að víkja. Trúin kallar okkur hins vegar til ábyrgðar gagnart náunganum. Í því felst köllun okkar kristinna manna og hlutverk. Sú köllun verður enn brýnni í heimi sem þarf sannarlega á staðfestu okkar og sannfæringu að halda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

url: http://skuli.annall.is/2006-07-16/19.32.55/

© skúli.annáll.is · Færslur · Ummæli