skúli.annáll.is

AnnállGreinarPrédikanirSiglinganámskeiðSýnódurSöfnuður

« Fótbolti og hlaup · Heim · Sökudólgar »

Meðalvegur

Skúli @ 22.31 1/7/06

Eins og fram hefur komið átti ég allt eins von á því að komast ekki á leiðarenda í hlaupinu í dag.

Þetta hafðist þó. Ég var með Garminn á úlnliðnum og hafði því góðar gætur á hraða og auðvitað púlsi. Ég vissi að ef ég léti eftir mér að fara of geyst þyrfti ég að borga það háu verði síðar í hlaupinu. Slíkt er eðli málsins samkvæmt hættulegast í byrjun hlaups þegar spennan og orkan eru í hámarki. Ég tók eftir því að hópurinn fór mjög rösklega af stað og hljóp fyrsta km. talsvert greitt. Sjálfur hélt ég hins vegar aftur af mér.

Hlaupið var í sjálfu sér ekki svo erfitt lengst af. Veðrið var frábært, smá gola og skýjað og leiðin jafn skemmtileg og fyrr. Bílaumferð var hins vegar mjög mikil og sumir ökumenn virtust ekki taka eftir þessum tvífætlingum á veginum. Í blálokin fann ég hins vegar fyrir óþægindum. Þá var ég orðinn óþolinmóður og átti erfitt með að halda einbeitingunni. Svo einkennilega sem það nú hljómar þá hjálpaði það til er ég ímyndaði mér að ég væri aðeins hálfnaður á leiðinni! Ég hef gert þetta áður – hugsa mér að markið sé miklu lengra í burtu og þá verður einhvern veginn auðveldara að hlaupa á jöfnum hraða. Er ekki alveg búinn að kryfja þessa sjálfsblekkingu í botn en hún virkar!

Tíminn varð sumsé ásættanlegur: 1:54 sem samsvarar 11 km/klst. Síðustu tvö árini hljóp ég á 1:44 sem eru 12 km/klst. og fyrir þremur árum á 2:04 (10 km/klst). Ég rataði því meðalveginn.

url: http://skuli.annall.is/2006-07-01/22.31.36/

© skúli.annáll.is · Færslur · Ummæli